Um fasteignakaup

Fasteignakaup eru einatt ein mikilvægasta ákvörðun ævinnar. Ekki bara í eignalegum skilningi, heldur hefur heimilið áhrif á almenna vellíðan. Því þarf að kappkosta að vanda valið og standa rétt að öllum málum. Ferlið getur þó verið margslungið.

Frágangur samninga:

Þegar rétta eignin er fundin og kaup hafa tekist er afar mikilvægt að tryggilega og formlega sé frá málum gengið, svo engin hætta sé á að misskilningur myndist. Undirrita þarf ýmis skjöl, þinglýsa þarf samningnum, gefa út afsal og fleira. Eins þarf að gæta að skiptingu opinberra gjalda milli kaupanda og seljanda og tryggingum vegna eignarinnar.

Undirritun kaupsamnings:

Þegar samþykki Íbúðalánasjóðs eða bankastofnunar er fengið, þ.e. ef um fasteignaveðbréf er að ræða, er gerður kaupsamningur. Fasteignasalinn sér um að útbúa samninginn, sem gerður er á eyðublað áþekkt því sem notað er fyrir tilboð og gagntilboð en þó með ítarlegri upplýsingum og ákvæðum. Seljandi og kaupandi skrifa báðir undir. Þegar verið er að selja húsnæði þurfa hjón bæði að undirrita, svo og þegar verið er að taka veðskuldabréf á fasteignir. Ýmist þurfa tveir aðilar að votta, eða einn löggildur fasteignasali eða lögmaður. Þá er verið að votta dagsetningu undirritunar, að réttir aðilar hafi undirritað og að þeir séu fjárráða eftir því sem vottarnir best vita. Allir eru fjárráða eftir 18 ára aldur, nema þeir séu sérstaklega sviptir fjárræði með dómi.

Gæta þarf að því að sumstaðar eiga sveitarfélögin eða aðrir forkaupsrétt að íbúðum eða húsum, þannig að þegar kaupsamningur er undirritaður þarf að fá áritun sveitarfélagsins um að það falli frá forkaupsrétti, áður en skjalinu er þinglýst. Einnig þarf að skoða hvort einhverjar kvaðir eða réttindi fylgi eignunum. Kvaðir eru til dæmis þinglýst ákvæði um að rafveitan hafi heimild til að setja lítið hús undir spennistöð á lóð hússins. Réttindi sem fylgja íbúðinni geta til dæmis verið sérbílastæði á lóðinni, eða heimild til að byggja bílskúr á ákveðnum stað á henni. Athuga ber að byggingarréttur af því tagi er aldrei virkur fyrr en búið er að teikna bygginguna og borgarfulltrúi hefur samþykkt hana. Byggingarleyfi gildir aðeins í eitt ár svo að eins gott er að hafa hraðar hendur, annars þarf að sækja um það aftur.

Afsal:

Þegar kaupandi hefur greitt seljanda allt það fé sem um var samiðm í kaupsamningi fær hann afsal fyrir íbúðinni. Afsal er skjal sem staðfestir að kaupandinn eigi íbúðina. Að vísu eignast hann íbúðina við undirritun kaupsamnings en sá eignarréttur er háður því að hann standi skil á umsömdum greiðslum.

Á afsalinu þarf að taka fram hver eignin er og er þá yfirleitt farið eftir veðbókarvottorði. Mikilvægt er að nýtt veðbókarvottorð sé við höndina þegar afsal er undirritað. Nafn seljandans þarf að koma fram og nafn þess sem kaupir svo og þær skuldir sem kaupandi yfirtekur. Seljandi og kaupandi undirrita báðir skjalið og séu þinglýstir eigendur fleiri en einn verða þeir allir að undirrita það. Afsali þarf að þingslýsa en ekki þarf að borga af því stimpilgjald hafi kaupsamningi verið þinglýst.

Tryggingar:

Þegar íbúðarkaupin eru í höfn, er nauðsynlegt að tryggja fasteignina og aðrar eignir svo sem innbú. Tryggingar eru í eðli sínu tvenns konar; lögbundnar og frjálsar. Brunatrygging er lögbundin en aðrar tryggingar sem varða húsnæði er eigandanum í sjálfsvald sett að taka.

Lögbundin brunatrygging:

Samkvæmt íslenskum lögum er skylt að brunatryggja allar fasteignir í landinu. Eigandanum er þó frjálst að velja tryggingarfélag. Lögbundin brunatrygging er takmörkuð að því leyti að hún bætir einungis það tjón sem verður á fasteigninni sjálfri með föstum innréttingum og og venjulegu fylgifé, svo sem eldavél, af völdum eldsvoða, sprenginga og sótfalls.

Önnur lögbundin trygging er viðlagatrygging sem bætir m.a. tjón af völdum náttúruhamfara, en ekki þarf að hafa áhyggjur af henni ef maður borgar skattana sína því iðgjaldið er innheimt gegnum skattakerfið.

Frjálsar tryggingar:

Vegna þess hve lögboðin brunatrygging er takmörkuð er í raun nauðsynlegt fyrir íbúðareiganda að tryggja innbú sitt sérstaklega. Besti kosturinn er þá að kaupa samsetta fasteignatryggingu, sem öll helstu tryggingafélögin bjóða undir mismunandi nöfnum. Í þessari tryggingu eru einfaldir þættir:

Vatnstjónstrygging, innbrotstrygging, glertrygging, fok- og óveðurstrygging, skýfalls- og asahlákutrygging, frostsprungutrygging, snjóþungatrygging, brottflutnings- og húsaleigutrygging, brots- og hrunstrygging, sótfallstrygging og hreinlætistækjatrygging.

Líftrygging:

Líftrygging snertir íbúðarkaup venjulega ekki nema óbeint en þó ættu íbúðarkaupendur að íhuga slíka tryggingu. Þar sem oft er stofnað til verulegra skulda við íbúðarkaup og afborganir iðulega miðaðar við að tveir vinni fyrir þeim, geta orðið vandræði ef annað hjóna eða sambýlisfólks fellur frá. Þá stendur hitt eftir með allar skuldbindingarnar. Viðunandi líftrygging getur riðið baggamuninn um það, hvort það getur haldið íbúðinni.